Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/24

Úr Wikiheimild

Eftir um morguninn lét Magnús konungur blása til þings öllu liðinu. En er þing var sett þá lýsti Magnús konungur fyrir öllum mönnum gjöf þeirri er hann hafði gefið Haraldi frænda sínum. Þórir af Steig gaf Haraldi konungsnafn þar á þinginu.

Þann dag bauð Haraldur konungur Magnúsi konungi til borðs síns og gekk hann um daginn með sex tigu manna til landtjalda Haralds konungs þar sem hann hafði veislu búið. Voru þar þá báðir konungarnir í samsæti og var þar veisla fögur og veitt kappsamlega. Voru konungarnir kátir og glaðir. En er á leið daginn þá lét Haraldur konungur bera í tjaldið töskur mjög margar. Þar báru menn og klæði og vopn og annars konar gripi. Það fé miðlaði hann, gaf hann og skipti með mönnum Magnúss konungs, þeim er þar voru í veislunni.

Síðan lét hann leysa töskurnar, mælti þá til Magnúss konungs: „Þér veittuð oss fyrra dag ríki mikið er þér höfðuð unnið áður af óvinum yðrum og vorum en tókuð oss til samlags við yður. Var það vel gert því að þér hafið mikið til unnið. Nú er hér í annan stað að vér höfum verið útlendis og höfum þó verið í nokkurum mannhættum áður en eg hefi saman komið þessu gulli er þér munuð nú sjá mega. Vil eg þetta leggja til félags við yður. Skulum við eiga lausafé allt jöfnum höndum svo sem við eigum ríki hálft hvor okkar í Noregi. Eg veit að skaplyndi okkað er ólíkt. Ertu maður miklu örvari en eg. Munum við skipta fé þessu með okkur að jafnaði. Fer þá hvor með sinn hlut sem vill.“

Síðan lét Haraldur breiða niður nautshúð mikla og steypa þar á gullinu úr töskunum. Síðan voru skálir teknar og met og reitt í sundur féið, skipt öllu með vogum og þótti öllum mönnum er sáu mikil furða er í Norðurlöndum skyldi vera svo mikið gull saman komið í einn stað. Þetta var þó raundar Grikkjakonungs eiga og auður, sem allir menn segja að þar sé rautt gull húsum fullum. Konungarnir voru þá allkátir. Þá kom upp staup eitt. Það var svo mikið sem mannshöfuð.

Tók Haraldur konungur upp staupið og mælti: „Hvar er nú það gull Magnús frændi er þú leiðir í móti þessum knapphöfða?“

Þá svarar Magnús konungur: „Svo hefir gefist ófriður og stórir leiðangrar að nálega allt gull og silfur er upp gengið, það er í minni varðveislu er. Nú er eigi meira gull en hringur þessi í minni eign,“ tók hringinn og seldi Haraldi.

Hann leit á og mælti: „Það er lítið gull frændi þeim konungi er tveggja konunga ríki á en þó munu sumir ifa um hvort þú átt þenna hring.“

Þá svaraði Magnús konungur áhyggjusamlega: „Ef eg á eigi þenna hring að réttu þá veit eg eigi hvað eg hefi rétt fengið, því að Ólafur konungur hinn helgi faðir minn gaf mér þenna hring á hinum efsta skilnaði.“

Þá svarar Haraldur konungur hlæjandi: „Satt segir þú Magnús konungur. Faðir þinn gaf þér hringinn. Þann hring tók hann af föður mínum fyrir ekki mikla sök. Er það og satt að þá var ekki gott smákonungum í Noregi er faðir þinn var sem ríkastur.“

Haraldur konungur gaf Steigar-Þóri þar að veislunni mösurbolla. Hann var gyrður með silfri og silfurhadda yfir og gyllt hvorttveggja og fullur upp af skírum silfurpeningum. Þar fylgdu og tveir gullhringar og stóðu mörk báðir saman. Hann gaf honum og skikkju sína, það var brúnn purpuri, hvít skinn með, og hét honum miklum metnaði og vináttu sinni.

Þorgils Snorrason sagði svo að hann sá altarisklæðið það er gert var úr möttlinum, en Guðríður dóttir Guttorms Steigar-Þórissonar sagði að hún kvað Guttorm föður sinn eiga bollann svo að hún sá.

Svo segir Bölverkur:

Heimil varð, er eg heyrði,
hoddstríðir, síðan,
græn, en gull bauðst honum,
grund, er Magnús funduð.
Endist ykkar frænda
allfriðlega á miðli
sætt en síðan vætti
Sveinn rómöldu einnar.