Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/23

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Magnús konungur lá við land og hafði landtjald á landi uppi. Hann bauð þá Haraldi frænda sínum til borðs síns og gekk Haraldur til veislunnar með sex tigu manna. Var þar allfögur veisla. En er á leið daginn gekk Magnús konungur inn í tjaldið þar sem Haraldur sat. Menn gengu með honum og báru byrðar. Það voru vopn og klæði. Þá gekk konungur að hinum ysta manni og gaf þeim sverð gott, öðrum skjöld, þá klæði eða vopn eða gull, þeim stærra er tignari voru.

Síðast kom hann fyrir Harald frænda sinn og hafði í hendi sér reyrteina tvo og mælti svo: „Hvorn viltu hér þiggja teininn?“

Þá svarar Haraldur: „Þann er nærri er mér.“

Þá mælti Magnús konungur: „Með þessum reyrsprota gef eg yður hálft Noregsveldi með öllum skyldum og sköttum og allri eign er þar liggur til með þeim formála að þú skalt jafnréttur konungur í öllum stöðum í Noregi sem eg. En þá er vér erum allir saman skal eg vera fyrirmaður í heilsan og þjónan og að sæti. Ef þrír eru tignir menn skal eg milli sitja. Eg skal hafa konungslægi og konungsbryggju. Þér skuluð og styðja og styrkja vort ríki í þann stað er vér gerðum yður að þeim manni í Noregi er vér hugðum að engi skyldi verða meðan vor haus væri uppi fyrir ofan mold.“

Þá stóð upp Haraldur og þakkaði honum vel tign og vegsemd. Setjast þá niður báðir og voru allkátir þann dag. Um kveldið gekk Haraldur og hans menn til skips síns.