Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/22

Úr Wikiheimild


Litlu síðar var það að Haraldur og Sveinn töluðu kveld eitt við drykkju. Spurði Sveinn hverja gripi Haraldur hefði, þá er honum væri virkt mest á. Hann svarar svo að það var merki hans, Landeyðan. Þá spurði Sveinn hvað merkinu fylgdi, þess er það var svo mikil gersemi. Haraldur segir að það var mælt að sá mundi hafa sigur er merkið er fyrir borið, segir að svo hafði orðið síðan er hann fékk það.

Sveinn segir: „Þá mun eg trúa að sú náttúra fylgi merkinu ef þú átt þrjár orustur við Magnús konung frænda þinn og hefir þú sigur í öllum.“

Þá segir Haraldur stygglega: „Veit eg frændsemi okkra Magnúss þótt þú minnir mig ekki á það og er eigi fyrir því svo, að við förumst í móti með herskildi að eigi mundu okkrir fundir aðrir vera skaplegri.“

Sveinn brá þá lit við og mælti: „Geta þessa sumir, Haraldur, að þú hafir gert svo fyrr að halda það einu af einkamálum er þér þykir sem þitt mál dragi helst fram.“

Haraldur svarar: „Minni staði muntu á vita að eg hafi eigi haldið einkamálin en eg veit að Magnús konungur muni kalla að þú hafir haldið við hann.“

Gekk þá sína leið hvor þeirra.

Um kveldið er Haraldur gekk til svefns í lyfting á skipi sínu þá mælti hann við skósvein sinn: „Nú mun eg eigi liggja í hvílunni í nótt því að mér er grunur á að eigi muni allt vera svikalaust. Eg fann í kveld að Sveinn mágur minn varð reiður mjög við bermæli mína. Skaltu halda vörð á ef hér verður nokkuð í nótt til tíðinda.“

Gekk þá Haraldur í annan stað að sofa en lagði þar í rúm sitt tréstobba einn.

En um nóttina var róið á báti að lyftingunni og gekk þar maður upp og spretti lyftingartjaldinu, gekk síðan upp hjá og hjó í rúm Haralds með mikilli öxi svo að föst stóð í trénu. Hljóp maður sjá þegar út í bátinn en niðamyrkur var á. Reri hann þegar í brott en öxin var eftir til jartegna. Stóð hún föst í trénu.

Síðan vakti Haraldur upp menn sína og lét þá vita við hver svik þeir voru komnir. „Megum vér það sjá,“ segir hann, „að vér höfum hér ekki liðs við Svein þegar er hann slæst á svikræði við oss. Mun sá vera hinn besti kostur að leita á brott héðan meðan kostur er. Leysum vér nú skip vor og róum leynilega í brott.“

Þeir gerðu svo, róa um nóttina norður með landi, fara dag og nótt, þar til er þeir finna Magnús konung þar er hann lá með her sínum. Gekk þá Haraldur á fund Magnúss konungs frænda síns og varð þar fagnafundur svo sem Þjóðólfur segir:

Vatn léstu, vísi, slitna,
víðkunnr, of skör þunnri,
dýr klufu flóð, þar er fóruð,
flaust, í Danmörk austan.
Bauð hálf við sig síðan
sonr Ólafs þér, hála
frændr hykk að þar fyndust
fegnir, lönd og þegna.

Síðan töluðu þeir frændur milli sín. Fór það allt sáttgjarnlega.