Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/21

Úr Wikiheimild

Menn Magnúss konungs, þeir er voru í ráðagerð með honum, tala það að þeim þykir í óvænt efni komið er þeir Haraldur frændur skulu berast banaspjót eftir. Bjóðast margir menn til þess að fara og leita um sættir með þeim og af þeim fyrirtölum samþykkist konungur því. Voru þá menn gervir á hleypiskútu og fóru þeir sem skyndilegast suður til Danmerkur, fengu þar til danska menn, þá er fullkomnir voru vinir Magnúss konungs, að bera þetta erindi til Haralds. Þetta mál fór mjög af hljóði.

En er Haraldur heyrði þetta sagt, að Magnús konungur frændi hans mundi bjóða honum sætt og félagsskap og Haraldur mundi hafa skulu hálfan Noreg við Magnús konung en hvor þeirra við annan hálft lausafé beggja þeirra, fóru þessi einkamál þá aftur til Magnúss konungs.