Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/20

Úr Wikiheimild

Magnús konungur Ólafsson hélt um haustið norður í Noreg eftir Helganessbardaga. Þá spurði hann þau tíðindi að Haraldur Sigurðarson, frændi hans, var kominn til Svíþjóðar og það með að þeir Sveinn Úlfsson höfðu gert félag sitt og höfðu her mikinn úti og ætluðu enn að legga undir sig Danaveldi en síðan Noreg.

Magnús konungur býður leiðangri út úr Noregi og dregst honum brátt her mikill. Hann spurði þá að þeir Haraldur og Sveinn voru komnir til Danmerkur, brenndu þar allt og bældu en landsfólk gekk víða undir þá. Það var og sagt með að Haraldur væri meiri en aðrir menn og sterkari og svo vitur að honum var ekki ófært og hann hafði ávallt sigur er hann barðist. Hann var og svo auðigur að gulli að engi vissi dæmi til.

Svo segir Þjóðólfur.

Nú er valmeiðum víðis,
veit drótt mikinn ótta,
skeiðr hefir her fyr hauðri,
hætt góðs friðar vætta.
Mildr vill Magnús halda
morðs hlunngotum norðan,
ítr, en önnur skreytir
unnvigg Haraldr sunnan.