Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/27

Úr Wikiheimild


En er vora tók buðu þeir út leiðangri úr Noregi Magnús konungur og Haraldur konungur.

Það bar að eitt sinn að Magnús konungur og Haraldur konungur lágu um nótt í einni höfn. En um daginn eftir var Haraldur fyrri búinn og sigldi hann þegar. En að kveldi lagði hann til hafnar þar sem þeir Magnús konungur höfðu ætlað að vera þá nótt. Haraldur lagði sínu skipi í konungslægi og tjaldaði þar. Magnús konungur sigldi síðar um daginn og komu þeir svo til hafnar að þeir Haraldur höfðu tjaldað áður. Sjá þeir að Haraldur hafði lagið í konungslægi og hann ætlaði þar að liggja.

En er þeir Magnús konungur höfðu hlaðið seglum sínum þá mælti Magnús konungur: „Greiði menn nú róðurinn og setjist með endilöngum borðum, sumir brjóti upp vopn sín og vopnist. En með því að þeir vilja eigi brott leggja þá skulum vér berjast.“

En er Haraldur konungur sér að Magnús konungur ætlaði að leggja til orustu við þá, þá mælti hann við sína menn: „Höggvið þér festarnar og látið slá skipunum úr lægi. Reiður er Magnús frændi.“

Svo gerðu þeir, þeir lögðu skipum úr læginu. Magnús konungur leggur sínum skipum í lægið.

Þá er hvorirtveggju höfðu um búist gekk Haraldur konungur með nokkura menn á skip Magnúss konungs. Konungur fagnaði honum vel, bað hann velkominn.

Þá svarar Haraldur konungur: „Það hugði eg að vér værum með vinum komnir en nokkuð grunaði mig um hríð hvort þér munduð svo vilja vera láta. En það er satt er mælt er að bernska er bráðgeð. Vil eg virða eigi á aðra lund en þetta væri æskubragð.“

Þá segir Magnús konungur: „Það var ættarbragð en eigi æsku þótt eg mætti muna hvað eg gaf eða hvað eg varnaði. Ef þessi litli hlutur væri nú tekinn fyrir vort ráð þá mundi brátt vera annar. En alla sætt viljum vér halda, þá er ger er, en það sama viljum vér af yður hafa sem vér eigum skilt.“

Þá svaraði Haraldur konungur: „Það er og forn siður að hinn vitrari vægi,“ gekk þá aftur á skip sitt.

Í þvílíkum viðskiptum konunganna fannst það að vant var að gæta til. Töldu menn Magnúss konungs að hann hefði rétt að mæla en þeir er óvitrir voru töldu það að Haraldur væri nokkuð svívirður. En Haralds konungs menn sögðu það að eigi væri á aðra lund skilt en Magnús konungur skyldi lægi hafa ef þeir kæmu jafnsnemma en Haraldur væri eigi skyldur að leggja úr læginu ef hann lægi fyrir, töldu hafa Harald gert viturlega og vel. En þeir er verr vildu um ræða töldu að Magnús konungur vildi rjúfa sætt og töldu að hann hefði gert rangt og ósæmd Haraldi konungi.

Við slíkar greinir gerðist brátt umræða óvitra manna til þess að konungum varð sundurþykki að. Mart fannst þá til þess er konungunum þótti sinn veg hvorum þótt hér sé fátt ritað.