Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/29

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Eftir þessi tíðindi hafði Haraldur konungur þing við liðið, segir mönnum ætlan sína að hann vill fara með herinum til Vébjargaþings og láta sig taka til konungs yfir Danaveldi, vinna síðan landið, telur það jafnvel sína erfð sem Noregsveldi eftir Magnús frænda sinn, biður þá liðið efla sig, lætur þá munu Norðmenn vera allan aldur yfirmenn Dana.

Þá svarar Einar þambarskelfir, lét sér vera skyldra að flytja Magnús konung fóstra sinn til graftar og færa hann föður sínum, Ólafi konungi, en berjast útlendis eða girnast annars konungs veldi og eign, lýkur svo málinu að betra þótti honum að fylgja Magnúsi konungi dauðum en hverjum annarra konunga lifanda, lét síðan taka líkið og búa um veglega svo að sjá mátti umbúnaðinn á konungsskipið. Þá bjuggust allir Þrændir og Norðmenn til heimfarar með líki Magnúss konungs og raufst leiðangurinn.

Sér þá Haraldur konungur þann kost hinn besta að fara aftur til Noregs og eignast fyrst það veldi og eflast þaðan að liði. Fór nú Haraldur konungur aftur með öllu liðinu í Noreg. En þegar er hann kom til Noregs þá átti hann þing við landsmenn og lét taka sig til konungs um allt land. Fór hann svo allt austan um Víkina að hann var til konungs tekinn í hverju fylki í Noregi.