Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/34

Úr Wikiheimild

Sveinn konungur réð fyrir öllu Danaveldi síðan er Magnús konungur andaðist. Hann sat um kyrrt á vetrum en lá úti með almenning á sumrum og heitaðist að fara norður í Noreg með Danaher og gera þar eigi minna illt en Haraldur konungur gerði í Danaveldi. Sveinn konungur bauð Haraldi konungi um veturinn að þeir skyldu finnast um sumarið eftir í Elfinni og berjast þar til þrautar eða sættast ella. Þá tóku hvorirtveggju allan veturinn að búa skip sín og hafa úti hálfan almenning báðir eftir um sumarið.

Það sumar kom utan af Íslandi Þorleikur fagri og tók að yrkja flokk um Svein konung Úlfsson. Hann spurði þá er hann kom norður í Noreg að Haraldur konungur var farinn suður til Elfar móti Sveini konungi.

Þá kvað Þorleikur þetta:

Von er að vísa kænan
vígs á Rakna stígu
ört í odda snertu
Innþrænda lið finni.
Þar má enn hvor annan
öndu nemr eða löndum,
lítt hyggr Sveinn á sáttir
sjaldfestar, guð valda.

Og enn kvað hann þetta:

Færir reiðr, sá er rauða
rönd hefir oft fyr landi,
breið á Buðla slóðir
borðraukn Haraldr norðan,
en lauks um sjá sækja
Sveins fagrdrifin steini
glæsidýr, þess er geira,
gullmunnuð, rýðr, sunnan.

Haraldur konungur kom til ákveðinnar stefnu með her sinn. Þá spurði hann að Sveinn konungur lá suður við Sjáland með flota sínum. Þá skipti Haraldur konungur liði sínu, lét aftur fara flestan bóndaherinn. Hann fór með hirð sinni og lendum mönnum og vildarliðinu og það allt af bóndaliðinu er næst var Dönum. Þeir fóru suður til Jótlands fyrir sunnan Vendilskaga, svo suður um Þjóðu, fóru þar allt herskildi.

Svo segir Stúfur skáld:

Flýðu þeir á Þjóðu
þengils fund af stundu.
Stórt réð hugprútt hjarta.
Haralds önd ofar löndum.

Allt fóru þeir suður til Heiðabýjar, tóku kaupstaðinn og brenndu.

Þá ortu menn Haralds konungs þetta:

Brenndr var upp með endum
allr, en það má kalla
hraustlegt bragð, er eg hugði,
Heiðabær af reiði.
Von er að vinnum Sveini,
vask í nótt fyr óttu,
gaus hár logi úr húsum,
harm, á borgararmi.

Þessa getur Þorleikur og í sínum flokki þá er hann hafði spurt að engi hafði tekist orusta við Elfina:

Hve hefir til Heiðabæjar
heiftgjarn konungr árnað,
fólk-Rögnir getr fregna
fylkis sveit, hinn er veitat,
þá er til þengils býjar
þarflaust Haraldr austan
ár það er án um væri,
endr byrskíðum renndi.