Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/36

Úr Wikiheimild


Haraldur konungur var maður ríkur og stjórnsamur innanlands, spekingur mikill að viti svo að það er alþýðu mál að engi höfðingi hafi sá verið á Norðurlöndum er jafndjúpvitur hafi verið sem Haraldur eða ráðsnjallur. Hann var orustumaður mikill og hinn vopndjarfasti. Hann var sterkur og vopnfær betur en hver maður annarra svo sem fyrr er ritað.

En þó er miklu fleira óritað hans frægðarverka. Kemur til þess ófræði vor og það annað að vér viljum eigi setja á bækur vitnislausar sögur. Þótt vér höfum heyrt ræður eða getið fleiri hluta þá þykir oss héðan í frá betra að við sé aukið en þetta sama þurfi úr að taka. Er saga mikil frá Haraldi konungi sett í kvæði þau er íslenskir menn færðu honum sjálfum eða sonum hans. Var hann fyrir þá sök vinur þeirra mikill. Hann var og hinn mesti vinur hingað til allra landsmanna. Og þá er var mikið hallæri á Íslandi þá leyfði Haraldur konungur fjórum skipum mjölleyfi til Íslands og kvað á að ekki skippund skyldi vera dýrra en fyrir hundrað vaðmála. Hann leyfði utanferð öllum fátækum mönnum þeim er sér fengju vistir um haf. Og þaðan af nærðist land þetta til árferðar og batnaðar. Haraldur konungur sendi út hingað klukku til kirkju þeirrar er hinn helgi Ólafur konungur sendi við til, er sett var á alþingi. Þvílík minni hafa menn hingað Haralds konungs og mörg önnur í stórgjöfum er hann veitti þeim mönnum er hann sóttu heim.

Halldór Snorrason og Úlfur Óspaksson, þeir er fyrr var getið, komu í Noreg með Haraldi konungi. Þeim var ólíkt farið að mörgu. Halldór var manna mestur og sterkastur og hinn fríðasti. Það vitni bar Haraldur konungur honum að hann hafi verið þeirra manna með honum er síst brygði við voveiflega hluti. Hvort er það var mannháski eða fagnaðartíðindi eða hvað sem að hendi kom í háska þá var hann eigi glaðari og eigi óglaðari, eigi svaf hann meira né minna eða drakk eða neytti matar en svo sem vandi hans var til. Halldór var maður fámæltur og stirðorður, bermæltur og stríðlundaður og ómjúkur en það kom illa þá við konung er hann hafði gnóga aðra með sér göfga menn og þjónustufulla. Dvaldist Halldór litla hríð með konungi. Fór hann til Íslands, gerði þar bú í Hjarðarholti, bjó þar til elli og varð gamall.