Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/4

Úr Wikiheimild


Það var eitthvert sinn, er þeir höfðu farið um land og skyldu taka sér náttból við skóga nokkura, og komu Væringjar fyrstir til náttstaðar og völdu þeir sér tjaldstaði þá er þeir sáu besta og hæst lágu því að þar er svo háttað að land er blautt og þegar er regn koma þar, þá er illt að búa þar er lágt liggur. Þá kom Gyrgir, höfðingi hersins, og er hann sá hvar Væringjar höfðu tjaldað bað hann þá í brott fara og tjalda í öðrum stað, segir að hann vill þar tjalda.

Haraldur segir svo: „Ef þér komið fyrri til náttbóls þá takið þér yður náttstað. Þá munum vér þar tjalda í öðrum stað þar sem oss líkar. Gerið þér nú og svo, tjaldið þar sem þér viljið í öðrum stað. Hugði eg að það væri réttur Væringja hér í veldi Grikkjakonungs að þeir skulu vera sjálfráða og frjálsir um alla hluti fyrir öllum mönnum en vera konungi einum og drottningu þjónustuskyldir.“

Þreyttu þeir þetta með kappmæli þar til er hvorirtveggju vopnuðust. Var þá við sjálft að þeir mundu berjast. Komu þá til hinir vitrustu menn og skildu þá. Sögðu þeir svo að betur var fallið að þeir sættust um þetta mál og gerðu skipan á með sér glögglega svo að eigi þyrfti oftar slíka deilu um. Var þá stefnulagi á komið með þeim og skipuðu hinir bestu menn og hinir vitrustu. En á þeirri stefnu réðu þeir það svo, að samt kom með öllum að hluti skyldi í skaut bera og hluta með Grikkjum og Væringjum hvorir fyrri skyldu ríða eða róa eða til hafnar leggja og kjósa um tjaldstaði. Skyldi því hvortveggi una þá sem hlutur segði. Síðan voru hlutir gervir og markaðir.

Þá mælti Haraldur við Gyrgi: „Eg vil sjá hversu þú markar þinn hlut að eigi mörkum við á eina lund báðir.“

Hann gerði svo. Síðan markaði Haraldur sinn hlut og kastaði í skautið og svo báðir þeir.

En sá maður er hlutinn skyldi upp taka þá tók hann upp annan og hélt milli fingra sér og brá upp hendinni og mælti: „Þessir skulu fyrri ríða og róa og til hafnar leggja og kjósa sér tjaldstaði.“

Haraldur greip til handarinnar og tók hlutinn og kastaði út á sjá.

Síðan mælti hann: „Þessi var vor hlutur.“

Gyrgir segir: „Hví léstu eigi sjá fleiri menn?“

„Sjá nú,“ segir Haraldur, „þann er eftir er. Muntu þar kenna þitt mark.“

Síðan var athugað um þann hlutinn og kenndu allir þar mark Gyrgis. Var það dæmt að Væringjar skyldu kjörna kosti hafa um allt það er þeir þreyttu um. Fleiri hlutir urðu til þess er þeir urðu eigi ásáttir og hlaust jafnan svo að Haraldur hafði sitt mál.