Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/5

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þeir fóru allir samt um sumarið og herjuðu. Þá er allur var saman herinn lét Haraldur sína menn vera fyrir utan bardaga eða ella þar er minnst var mannhætta og lést varast vilja að hann týndi herliði sínu. En er hann var einn saman með sínu liði þá lagðist hann svo fast til að berjast að annað tveggja skyldi hann fá sigur eða bana.

Svo bar oftlega til þá er Haraldur var höfðingi yfir liðinu að hann vann sigur þá er Gyrgir vann ekki. Þetta fundu hermenn og kölluðu betur fara mundu sitt mál ef Haraldur væri einn höfðingi yfir öllum herinum og ámæltu hertoganum að ekki yrði af honum eða hans liði.

Gyrgir segir að Væringjar vildu ekki lið veita honum, bað þá fara í annan stað en hann færi með öðrum herinum og vinna þvílíkt sem þeir mættu.

Fór þá Haraldur frá herinum og Væringjar með honum og latínumenn. Gyrgir fór með Grikkjaher. Sýndist þá hvað hvor mátti. Fékk Haraldur jafnan sigur og fé en Grikkir fóru heim til Miklagarðs nema ungir drengir, þeir er fá vildu sér fjár, söfnuðust til Haralds og höfðu hann þá fyrir hertoga.

Lagðist hann þá með her sinn vestur í Afríku er Væringjar kalla Serkland. Efldist hann þá mjög að liði. Í Serklandi eignaðist hann átta tigu borga. Voru sumar gefnar upp en sumar tók hann með valdi. Síðan fór hann til Sikileyjar.

Svo segir Þjóðólfur:

Tugu mátt tekna segja,
tandrauðs, á Serklandi,
ungr hætti sér, átta,
ormtorgs hötuðr, borga.
Áðr herskorðuðr harðan
Hildar leik und skildi,
Serkjum hættr, í sléttri
Sikileyju gekk heyja.

Svo segir Illugi Bryndælaskáld:

Braustu und Mikjál mæstan,
mágum heim, sem frágum,
sonr Buðla bauð sínum,
Sunnlönd, Haraldr, röndu.

Hér segir það að þá var Mikjáll Grikkjakonungur í þenna tíma.

Haraldur dvaldist marga vetur í Afríku, fékk óf lausafjár, gull og alls konar dýrgripi. En allt fé það er hann fékk og eigi þurfti hann að hafa til kostnaðar sér sendi hann með trúnaðarmönnum sínum norður í Hólmgarð í vald og gæslu Jarisleifs konungs og dróst þar saman ógrynni fjár, sem líklegt er að vera mundi er hann herjaði þann hluta heimsins er auðgastur var að gulli og dýrgripum, og svo mikið sem hann gerði að, er með sönnu var áður sagt, að hann mundi eignast hafa átta tigu borga.