Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/6

Úr Wikiheimild

En er Haraldur kom til Sikileyjar þá herjaði hann þar og lagði þar með liði sínu til einnar borgar mikillar og fjölmennrar. Settist hann um borgina því að þar voru sterkir veggir svo að honum þótti ósýnt að brjóta mundi mega. Borgarmenn höfðu vist gnóga og önnur föng þau er þeir þurftu til varnar.

Þá leitaði hann þess ráðs að fyglarar hans tóku smáfugla, þá er hreiðruðust í borginni og flugu á skóg um daga að taka sér mat. Haraldur lét binda á bak fuglunum lokarspónu af tyrvitré og steypti vaxi og brennusteini og lét slá eldi í. Flugu fuglarnir, þegar er lausir urðu, allir senn í borgina að vitja unga sinna og híbýla er þeir áttu í húsþekjum þar er þakt var reyr eða hálmi. Þá laust eldinum af fuglunum í húsþekjurnar. En þótt einnhver bæri litla byrði elds þá varð það skjótt mikill eldur er margir fuglar báru til víða um borgina í þekjur og því næst brann hvert hús að öðru þar til er borgin logaði. Þá gekk fólkið allt út úr borginni og bað sér miskunnar, þeir hinir sömu er áður höfðu margan dag drembilega mælt og háðulega til Grikkjahers og höfðingja þeirra. Gaf Haraldur öllum mönnum grið, þeim er þess beiddu, fékk síðan vald yfir þeirri borg.