Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/7

Úr Wikiheimild

Önnur borg var sú er Haraldur lagði til liði sínu. Sú var bæði fjölmenn og sterk svo að engi var von að þeir fengju brotið, vellir harðir og sléttir umhverfis borgina. Þá lét Haraldur taka til að grafa gröft frá þar sem féll bekkur einn og var þar djúpt gil svo að ekki mátti þannug sjá úr borginni. Þeir fluttu moldina út á vatnið og létu straum í brott bera. Voru þeir að þessu verki bæði dag og nótt. Var skipt til sveitum. En herinn gekk alla daga utan að borginni en borgarmenn gengu í vígskörð og skutu hvorir á aðra en um nætur sváfu þeir hvorirtveggju.

En er Haraldur skildi það að jarðhús það var svo langt að þá mundi vera komið inn um borgarvegginn þá lét hann vopnast lið sitt. Það var móti degi er þeir gengu inn í jarðhúsið. En er þeir komu til enda grófu þeir upp yfir höfuð sér þar til er steinar urðu fyrir lími settir. Það var gólf í steinhöllinni. Síðan brutu þeir upp gólfið og gengu upp í höllina. Þar sátu fyrir menn margir af borgarmönnum, snæddu þar og drukku, og var þeim það hinn mesti óvísa vargur því að Væringjar gengu þar við brugðnum sverðum og drápu þar þegar suma en sumir flýðu, þeir er því komu við. Væringjar sóttu eftir þeim en sumir tóku borgarhliðin og luku upp. Gekk þar inn allur fjöldi hersins. En er þeir komu í borgina þá flýði borgarlýðurinn en margir báðu griða og fengu það allir er upp gáfust. Eignaðist Haraldur borgina með þessum hætti og þar með ógrynni fjár.