Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/46

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Finnur Árnason fór inn til bæjar og hafði með sér húskarla sína, nær átta tigum manna. En er hann kom inn til býjarins þá átti hann þing við býjarmenn. Finnur talaði á þinginu langt og snjallt, bað býjarmenn og bændur taka allt annað ráð en hatast við konung sinn eða reka hann í brott, minnti þá á hversu mart illt hafði yfir þá gengið síðan er þeir höfðu það fyrr gert við hinn helga Ólaf konung, sagði og að konungur vill bæta víg þessi svo sem hinir bestu menn og hinir vitrustu vilja dæma. Lauk Finnur svo sinni ræðu að menn vildu láta standa þetta mál kyrrt þar til er aftur kæmu sendimenn þeir er Bergljót hafði gert til Upplanda á fund Hákonar Ívarssonar.

Síðan fór Finnur út til Orkadals með þá menn er honum höfðu fylgt til býjar. Síðan fór hann upp til Dofrafjalls og austur um fjall. Fór Finnur fyrst á fund Orms jarls mágs síns, jarl átti Sigríði dóttur Finns, og sagði honum til erinda sinna.