Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/45

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
45. Frá Haraldi konungi og Finni Árnasyni


Finnur Árnason bjó þá á Yrjum á Austurátt. Hann var þá lendur maður Haralds konungs. Finnur átti Bergljótu dóttur Hálfdanar Sigurðarsonar sýrs. Hálfdan var bróðir Ólafs konungs hins helga og Haralds konungs. Þóra kona Haralds konungs var bróðurdóttir Finns Árnasonar. Var Finnur hinn kærsti konungi og allir þeir bræður. Finnur Árnason hafði verið nokkur sumur í vesturvíking. Höfðu þeir þá verið allir saman í hernaði Finnur og Guttormur Gunnhildarson og Hákon Ívarsson.

Haraldur konungur fór út eftir Þrándheimi og út á Austurátt. Var honum þar vel fagnað. Síðan töluðust þeir við konungur og Finnur og ræddu sín á milli um þessi tíðindi er þá höfðu gerst fyrir skemmstu, aftöku Einars og þeirra feðga og svo kurr þann og þys er Þrændir gerðu að konungi.

Finnur svarar skjótt: „Þér er verst farið að hvívetna. Þú gerir hvaðvetna illt en síðan ertu svo hræddur að þú veist eigi hvar þú hefir þig.“

Konungur svarar hlæjandi: „Mágur, eg vil nú senda þig inn til býjar. Eg vil að þú sættir bændur við mig. Vil eg ef það gengur eigi að þú farir til Upplanda og komir því við Hákon Ívarsson að hann sé eigi mótgöngumaður minn.“

Finnur svarar: „Hvað skaltu til leggja við mig ef eg fer forsendu þessa því að bæði Þrændir og Upplendingar eru fjandur þínir svo miklir að engum sendimönnum þínum er fært þannug nema sín njóti við.“

Konungur svarar: „Far þú mágur sendiförina því að eg veit að þú kemur áleiðis ef nokkur kemur að gera oss sátta og kjós þú bæn að oss.“

Finnur segir: „Halt þú þá orð þín en eg mun kjósa bænina. Eg kýs grið og landsvist Kálfi bróður mínum og eignir hans allar og það með að hann hafi nafnbætur sínar og allt ríki sitt, slíkt sem hann hafði áður hann fór úr landi.“

Konungur sagði og játti öllu þessu er Finnur mælti, höfðu að þessu vitni og handfestar.

Síðan mælti Finnur: „Hvað skal eg Hákoni fram bjóða til þess að hann játti þér griðum? Hann ræður nú mest fyrir þeim Þrændum.“

Konungur segir: „Hitt skaltu fyrst heyra hvað Hákon mælir til sættar fyrir sína hönd. Síðan kom þú mínu máli sem framast máttu en að lyktum þá neitaðu konungdóminum einum.“

Síðan fór Haraldur konungur suður á Mæri og dró að sér lið og gerðist fjölmennur.