Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/44

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Einn dag var átt mót og var konungur sjálfur á mótinu. Hafði verið tekinn í býnum þjófur einn og var hafður á mótinu. Maðurinn hafði verið fyrr með Einari og hafði honum vel getist að manninum. Var Einari sagt. Þá þóttist hann vita að konungur mundi eigi manninn láta undan ganga fyrir því að heldur, þótt Einari þætti það máli skipta. Lét þá Einar vopnast lið sitt og ganga síðan á mótið. Tekur Einar manninn af mótinu með valdi.

Eftir þetta gengu að beggja vinir og báru sáttmál milli þeirra. Kom þá svo að stefnulagi var á komið. Skyldu þeir hittast sjálfir. Málstofa var í konungsgarði við ána niðri. Gekk konungur í stofuna við fá menn en annað lið hans var úti í garðinum. Konungur lét snúa fjöl yfir ljórann og var lítið opið á. Þá kom Einar í garðinn með sitt lið.

Hann mælti við Eindriða son sinn: „Ver þú með liðinu úti. Við engu mun mér þá hætt.“

Eindriði stóð úti við stofudyrin.

En er Einar kom inn í stofuna mælti hann: „Myrkt er í málstofu konungsins.“

Jafnskjótt hljópu menn að honum og lögðu sumir en sumir hjuggu. En er Eindriði heyrði það brá hann sverðinu og hljóp inn í stofuna. Var hann þegar felldur og báðir þeir. Þá hljópu konungsmenn að stofunni og fyrir dyrin en bóndum féllust hendur því að þeir höfðu þá engan forgöngumann. Eggjaði hver annan, segja að skömm var er þeir skyldu eigi hefna höfðingja síns en þó varð ekki af atgöngunni. Konungur gekk út til liðs síns og skaut á fylking og setti upp merki sitt en engi varð atganga búandanna. Þá gekk konungur út á skip sitt og allt lið hans, reri síðan út eftir ánni og svo út á fjörð leið sína.

Bergljót kona Einars spurði fall hans. Var hún þá í herbergi því er þau Einar höfðu áður haft út í bænum. Gekk hún þegar upp í konungsgarð þar sem bóndaliðið var. Hún eggjaði þá mjög til orustu en í því bili reri konungur út eftir ánni.

Þá mælti Bergljót: „Missum vér nú Hákonar Ívarssonar frænda míns. Eigi mundu banamenn Eindriða róa hér út eftir ánni ef Hákon stæði hér á árbakkanum.“

Síðan lét Bergljót búa um lík þeirra Einars og Eindriða. Voru þeir jarðaðir að Ólafskirkju hjá leiði Magnúss konungs Ólafssonar.

Eftir fall Einars var Haraldur konungur svo mjög óþokkaður af verki þessu, að það eina skorti á er lendir menn og bændur veittu eigi atferð og héldu bardaga við hann, að engi varð forgöngumaður til að reisa merki fyrir búandaherinum.