Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/43

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Einar þambarskelfir var mest forstjóri fyrir bóndum allt um Þrándheim. Hélt hann upp svörum fyrir þá á þingum er konungsmenn sóttu. Einar kunni vel til laga. Skorti hann eigi dirfð til að flytja það fram á þingum þó að sjálfur konungur væri við. Veittu honum lið allir bændur. Konungur reiddist því mjög og kom svo að lyktum að þeir þreyttu kappmæli með sér. Sagði Einar að bændur vildu eigi þola honum ólög ef hann bryti landsrétt á þeim. Og fór svo nokkurum sinnum milli þeirra. Þá tók Einar að hafa fjölmenni um sig heima en þó miklu fleira þá er hann fór til býjar, svo að konungur var þar fyrir.

Það var eitt sinn að Einar fór inn til býjar og hafði lið mikið, langskip átta eða níu og nær fimm hundruðum manna. En er hann kom til bæjar gekk hann upp með lið það.

Haraldur konungur var í garði sínum og stóð úti í loftsvölum og sá er lið Einars gekk af skipum og segja menn að Haraldur kvað þá:

Hér sé eg upp hinn örva
Einar, þann er kann skeina
þjálma, þambarskelmi,
þangs, fjölmennan ganga.
Fullafli bíðr fyllar,
finn eg oft að drífr minna,
hilmis stóls, á hæla
húskarlalið jarli.
Rjóðandi mun ráða
randa bliks úr landi
oss nema Einar kyssi
öxar munn hinn þunna.

Einar dvaldist í býnum nokkura daga.