Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/48

Úr Wikiheimild

En er sú stefna kom er Hákon skyldi vitja þessa einkamála þá fór hann á fund Haralds konungs.

En er þeir taka tal sitt þá segir konungur að hann vill halda allt það af sinni hendi sem í sætt hafði komið með þeim Finni. „Skaltu Hákon,“ segir konungur, „tala mál þetta við Ragnhildi, hvort hún vill samþykkja þetta ráð. En eigi er þér og engum öðrum að ráðanda að fá Ragnhildar svo að eigi sé hennar samþykki við.“

Síðan gekk Hákon á fund Ragnhildar og bar upp fyrir hana bónorð þetta.

Hún svarar svo: „Oft finn eg það að mér er aldauði Magnús konungur faðir minn ef eg skal giftast bónda einum þó að þú sért fríður maður eða vel búinn að íþróttum. Ef Magnús konungur lifði þá mundi hann eigi gifta mig minna manni en konungi. Nú er þess eigi von að eg vilji giftast ótignum manni.“

Síðan gekk Hákon á fund Haralds konungs og segir honum ræðu þeirra Ragnhildar, innir þá upp einkamál þeirra Finns. Var þá og Finnur hjá og fleiri menn þeir er við ræðu þeirra Finns höfðu verið.

Segir Hákon svo til allra þeirra vitnis að svo var skilt að konungur skyldi svo Ragnhildi heiman gera að henni líkaði. „Nú vill hún eigi eiga ótiginn mann. Þá megið þér gefa mér tignarnafn. Hefi eg til þess ætt að eg má heita jarl og nokkura hluti aðra að því er menn kalla.“

Konungur segir: „Ólafur konungur bróðir minn og Magnús konungur sonur hans, þá er þeir réðu ríki, létu þeir einn jarl vera senn í landi. Hefi eg og svo gert síðan er eg var konungur. Vil eg eigi taka tign af Ormi jarli, þá er eg hefi áður gefið honum.“

Sá þá Hákon sitt mál að það mundi ekki viðgangast. Líkaði honum þá stórilla. Finnur var og allreiður. Sögðu þeir að konungur héldi ekki orð sín og skildust að svo búnu.

Hákon fór þá þegar úr landi og hafði langskip vel skipað. Hann kom fram suður í Danmörk og fór þegar á fund Sveins konungs mágs síns. Tók konungur feginsamlega við honum og fékk honum þar veislur miklar. Gerðist Hákon þar landvarnarmaður fyrir víkingum er mjög herjuðu á Danaveldi, Vindur og aðrir Austurvegsmenn og svo Kúrir. Lá hann úti á herskipum vetur sem sumar.