Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/49

Úr Wikiheimild

Ásmundur er maður nefndur er sagt er að væri systurson Sveins konungs og fósturson hans. Ásmundur var allra manna gervilegastur. Unni konungur honum mikið. En er Ásmundur dróst á legg var hann brátt ofstopamaður mikill og hann gerðist vígamaður. Konungi líkaði það illa og lét hann fara frá sér, fékk honum lén gott, það er hann mátti vel halda sig og sveit með sér.

En þegar er Ásmundur tók við konungsfé dró hann lið mikið að sér. En honum entist ekki það fé til síns kostnaðar er konungur hafði veitt honum. Þá tók hann annað miklu meira, það er konungur átti.

En er konungur spurði það þá stefndi hann Ásmundi á fund sinn. En er þeir hittust þá segir konungur að Ásmundur skyldi vera í hirð hans og hafa enga sveit og varð svo að vera sem konungur vildi. En er Ásmundur hafði verið litla hríð með konungi þá undi hann ekki þar og hljópst í brott um nótt og kom aftur til sveitar sinnar og gerði þá enn fleira illt en fyrr.

En er konungur reið yfir land og kom þar nær sem Ásmundur var þá sendi hann lið til að taka Ásmund með valdi. Síðan lét konungur setja hann í járn og halda hann svo um hríð og hugði að hann mundi spekjast.

En er Ásmundur kom úr járni þá hljóp hann þegar í brott og fékk sér lið og herskip, tók hann þá og herjaði bæði utanlands og innanlands og gerði hið mesta hervirki, drap mart manna og rændi víða. En þeir menn er fyrir þessum ófriði urðu komu til konungs og kærðu skaða sinn fyrir honum.

Hann svarar: „Hvað segið þér mér til þess? Hví farið þér eigi til Hákonar Ívarssonar? Hann er hér landvarnarmaður minn og til þess settur að friða fyrir yður bóndum en hegna víkingum. Var mér sagt að Hákon væri djarfur maður og frækn en nú líst mér sem hann vilji hvergi þar til leggja er honum þykir mannhætta í vera.“

Þessi orð konungs voru flutt til Hákonar og mörgum við aukið.

Síðan fór Hákon með liði sínu að leita Ásmundar. Varð fundur þeirra á skipum. Lagði Hákon þegar til orustu. Varð þar hörð orusta og mikil. Hákon gekk upp á skip Ásmundar og hrauð skipið. Kom svo að þeir Ásmundur skiptust sjálfir vopnum við og höggum. Þar féll Ásmundur. Hákon hjó höfuð af honum.

Síðan fór Hákon skyndilega á fund Sveins konungs og kom svo til hans að konungur sat um matborði. Hákon gekk fyrir borðið og lagði höfuðið á borðið fyrir konunginn og spurði ef hann kenndi. Konungur svaraði engu og var dreyrrauður á að sjá. Síðan gekk Hákon í brott.

Litlu síðar sendi konungur menn til hans og bað hann fara í brott úr sinni þjónustu: „Segið að eg vil ekki mein gera honum en ekki má eg gæta frænda vorra allra.“