Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/50

Úr Wikiheimild

Síðan fór Hákon brott úr Danmörk og norður í Noreg til eigna sinna. Þá var andaður Ormur jarl frændi hans. Menn urðu Hákoni fegnir mjög, frændur og vinir. Urðu þá til þess margir göfgir menn að ganga um sættir milli þeirra Haralds konungs og Hákonar. Kom svo að þeir sættust með því móti að Hákon fékk Ragnhildar konungsdóttur en Haraldur konungur gaf Hákoni jarldóm og veldi slíkt sem haft hafði Ormur jarl. Hákon sór Haraldi konungi trúnaðareiða til þeirrar þjónustu sem hann var skyldur til.