Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/52

Úr Wikiheimild

En hið næsta sumar eftir hafði Haraldur konungur leiðangur úti, fór suður til Danmerkur og herjaði þar um sumarið. En er hann kom suður til Fjóns þá var þar liðsafnaður mikill fyrir þeim.

Þá lét konungur lið sitt ganga af skipum og bjóst til uppgöngu. Hann skipaði liði sínu, lét vera fyrir sveit Kálf Árnason og bað þá ganga fyrsta upp og sagði þeim hvert þeir skyldu stefna en hann kveðst mundu ganga upp eftir þeim og koma þeim að liði. Þeir Kálfur gengu upp og kom brátt lið í móti þeim. Réð Kálfur þegar til orustu og varð sá bardagi eigi langur því að Kálfur var brátt ofurliði borinn og kom hann á flótta og lið hans en Danir fylgdu þeim. Féll mart af Norðmönnum. Þar féll Kálfur Árnason.

Haraldur konungur gekk upp á land með fylking sína. Var það brátt á leið hans að þeir sáu fyrir sér valinn og fundu brátt lík Kálfs. Var það borið ofan til skipa. En konungur gekk upp á land og herjaði og drap þar mart manna.

Svo segir Arnór:

Rauð, en rýrt varð síðan,
rann eldr um sjöt manna,
frána egg á Fjóni,
Fjónbyggjalið, tyggi.