Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/53

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
53. Ferð Finns Árnasonar úr landi


Eftir það lét Finnur Árnason sér fjandskap í þykja við konung um fall Kálfs bróður síns, kallaði að konungur væri ráðbani Kálfs og það væri blekking ein við Finn er hann hafði teygt Kálf bróður sinn vestan um haf á vald og trúnað Haralds konungs.

En er þessi ræða kom á loft þá mæltu það margir menn að það þótti grunnsælegt er Finnur hafði trúað því að Kálfur mundi fá trúnað Haralds konungs, þótti sem konungur væri heiftrækur um smærri hluti en þá er Kálfur hafði gert til saka við Harald konung.

Konungur lét hér ræða um hvern slíkt er vildi, sannaði það ekki, synjaði og eigi. Fannst það eitt á að konungi þótti það vel orðið.

Haraldur konungur kvað vísu þessa:

Nú emk ellefu allra,
eggjumst vígs, og tveggja,
þau eru enn svo að eg man, manna,
morð, ráðbani orðinn.
Ginn enn gráleik inna
golls, er fer með skolli,
lýtendr. Kveða lítið
lauki gæft til auka.

Finnur Árnason lét sér svo mikið um finnast mál þetta að hann fór af landi brott og kom fram suður í Danmörk, fór á fund Sveins konungs og fékk þar góðar viðtökur og töluðu þeir löngum einmæli og kom það upp að lyktum að Finnur gekk til handa Sveini konungi og gerðist hans maður en Sveinn konungur gaf Finni jarldóm og Halland til yfirsóknar og var hann þar til landvarnar fyrir Norðmönnum.