Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/55

Úr Wikiheimild

Um sumarið eftir fór Margaður konungur og Guttormur með honum og herjuðu á Bretland og fengu þar ógrynni fjár. Síðan lögðu þeir í Öngulseyjarsund. Þeir skyldu þar skipta herfangi sínu. En er fram var borið það mikla silfur og konungur sá það þá vildi hann einn samt hafa féið allt og virti þá lítils vingan sína við Guttorm. Guttormi líkaði það illa er hann skyldi vera hlutræningur og hans menn.

Konungur segir að hann skyldi eiga tvo kosti fyrir höndum: „Sá annar að una því sem vér viljum vera láta en annar sá að halda við oss orustu og hafi sá þá fé er sigur hefir og það með að þú skalt ganga af skipum þínum og skal eg þau hafa.“

Guttormi sýndist mikill vandi á báðar hendur, þóttist eigi mega láta sæmilega skip sín og fé fyrir enga tilgerninga. Það var og allháskasamlegt að berjast við konung og það mikla lið er honum fylgdi. En liðs þeirra var svo mikill munur að konungur hafði sextán langskip en Guttormur fimm. Þá bað Guttormur konung ljá sér þriggja nátta fresta um þetta mál til umráða við sína menn. Hugðist hann konung mundu mýkja mega á þeirri stundu og koma sínu máli í betri vingan við konung með fortölum sinna manna. En það fékkst ekki af konungi sem hann mælti til. Þá var Ólafsvökuaftann. Nú kaus Guttormur heldur að deyja með drengskap eða vega sigur heldur en hitt að þola skömm og svívirðu og klækisorð af svo mikilli missu. Þá kallaði hann á guð og hinn helga Ólaf konung frænda sinn, bað þá fulltings og hjálpar og hét til þess helga manns húss að gefa tíund af öllu því herfangi er þeir hlytu ef þeir fengju sigur.

Síðan skipaði hann liði sínu og fylkti móti þeim mikla her og réð til og barðist við þá. En með fulltingi guðs og hins heilaga Ólafs konungs fékk Guttormur sigur. Þar féll Margaður konungur og hver maður er honum fylgdi, ungur og gamall.

Og eftir þann háleita sigur vendir Guttormur heim glaður með öllum þeim fjárhlut er þeir höfðu fengið í orustu. Þá var af tekið silfrinu því er þeir höfðu fengið hinn tíundi hver peningur, svo sem heitið hafði verið hinum helga Ólafi konungi, og var það ófa mikið fé, svo að af því silfri lét Guttormur gera róðu eftir vexti sínum eða stafnbúa síns og er það líkneski sjö alna hátt. Guttormur gaf róðu þá svo búna til staðar hins heilaga Ólafs konungs. Hefir hún þar verið síðan til minningar sigurs Guttorms og jartegnar hins heilaga Ólafs konungs.