Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/62

Úr Wikiheimild

Sveinn konungur skipaði og sínu liði. Lagði hann sitt skip móti skipi Haralds konungs í miðju liði en næst honum lagði fram Finnur jarl Árnason sitt skip. Skipuðu Danir þar næst öllu því liði er fræknast var og best búið. Síðan tengdu hvorirtveggju sín skip allt um miðjan flotann. En fyrir því að svo mikill var herinn þá var það allur fjöldi skipanna er laust fór og lagði þá svo hver fram sitt skip sem skap hafði til en það var allmisjafnt. En þótt liðsmunur væri allmikill þá höfðu hvorirtveggju óvígjan her. Sveinn konungur hafði í liði með sér sex jarla.

Steinn Herdísarson sagði svo:

Hætti hersa drottinn
hugstrangr, skipa langra
hinn er með hálft beið annað
hundrað, Dana fundar.
Næst var það er réð rista
reiðr aðseti Hleiðrar
þangs láð mörum þingað
þremr hundruðum sunda.