Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/63

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Haraldur konungur lét blása herblástur þegar er hann hafði búin skip sín og lét þá greiða atróður sína menn.

Svo segir Steinn Herdísarson:

Vann fyrir móðu mynni
meinfært Haraldr Sveini.
Varð, því að vísi gerðit,
viðrnám, friðar biðja.
Herðu hjörvi gyrðir
Halland jöfurs spjallar,
heit blés und fyr utan,
atróðr, á sjá blóði.

Síðan tókst orusta og var hin snarpasta. Eggjar hvortveggi sitt lið.

Svo segir Steinn Herdísarson:

Nýtr bað skjöldungr skjóta,
skammt var liðs á miðli,
hlífar styggr og höggva
hvortveggi lið seggja.
Bæði fló þá er blóði
brandr hrauð af sér rauðu,
þat brá feigra flotna
fjörvi, grjót og örvar.

Það var síðarla dags er orusta seig saman og hélst svo alla nóttina. Haraldur konungur skaut af boga langa hríð.

Svo segir Þjóðólfur:

Álm dró upplenskr hilmir
alla nótt hinn snjalli.
Hremsur lét á hvítar
hlífr landreki drífa.
Brynmönnum smó benjar
blóðugr oddr þar er stóðu,
flugr óx Fáfnis vigra,
Finna gjöld í skjöldum.

Hákon jarl og það lið er honum fylgdi tengdi ekki sín skip og reri að Dana skipum þeim er laus fóru en hvert skip er hann tengdist við þá hrauð hann. En er það fundu Danir þá dró hver þeirra frá sitt skip þar er jarl fór. Sótti hann eftir Dönum svo sem þeir hömluðu undan og var þeim þá að komið flótta. Þá reri skúta að skipi jarls og var kallað á hann, sagt að fyrirléti annar fylkingararmurinn og þar var fallið mart lið þeirra. Síðan reri jarl þannug til og veitti þar harða atgöngu svo að Danir létu þá enn undan síga. Fór jarl svo alla nóttina, lagði þar fram sem mest var þörf en hvar sem hann kom fram þá hélt ekki við honum. Hákon reri hið ytra um bardagann. Hinn efra hlut nætur brast meginflóttinn á Dönum því að þá hafði Haraldur konungur upp gengið með sína sveit á skip Sveins konungs. Var það svo vendilega hroðið að allir menn féllu í skipinu nema þeir er á kaf hljópu.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Gekkat Sveinn af snekkju
saklaust hinn forhrausti,
málmr kom harðr við hjálma
hugi minn er það, sinni.
Farskostr hlaut að fljóta
fljótmælts vinar Jóta,
áðr en öðlingr flýði,
auðr, frá verðung dauðri.

En er merki Sveins konungs var fallið og autt skip hans þá flýðu allir hans menn en sumir féllu. En á þeim skipum er tengd voru, hljópu menn þar á kaf en sumir komust á önnur skip þau er laus voru. En allir Sveins menn reru þá undan, þeir er því komu við. Þar varð allmikið mannfall. En þar er konungarnir sjálfir höfðu barist og tengd voru flest skipin, þar lágu eftir auð skip Sveins konungs meir en sjö tigir.

Svo segir Þjóðólfur:

Sogns kváðu gram gegnan
glæst, sjö tigi hið fæsta,
senn á svipstund einni
Sveins þjóðar skip hrjóða.

Haraldur konungur reri eftir Dönum og rak þá en það var eigi hægt því að skipafloti var svo þröngur fyrir að varla mátti fram koma. Finnur jarl vildi eigi flýja og var hann handtekinn. Hann var og lítt sýndur.

Svo segir Þjóðólfur:

Sveinn át sigr að launa
sex, þeim er hvöt vexa
innan eina gunni
örleiks, Dana jörlum.
Varð, sá er vildit forða,
vígbjartr, snöru hjarta,
í fylkingu fenginn
Fiðr Árnason miðri.