Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/65

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Haraldur konungur og hans lið rak skammt flóttann, reru síðan aftur til skipanna, þeirra er auð voru. Þá rannsökuðu þeir valinn. Fannst á konungsskipinu fjöldi dauðra manna en eigi fannst lík konungs en þó þóttust þeir vita að hann var fallinn. Lét þá Haraldur konungur veita umbúnað líkum manna sinna en binda sár þeirra er þess þurftu. Síðan lét hann flytja til lands lík Sveins manna en sendi boð bóndum að þeir skyldu jarða líkin. Síðan lét hann skipta herfangi. Hann dvaldist þar nokkura hríð. Þá spurði hann þau tíðindi að Sveinn konungur var kominn til Sjálands og þá var kominn til hans her sjá allur er flúið hafði úr orustu og mikið lið annað og hafði hann ógrynni hers fengið.