Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/66

Úr Wikiheimild

Finnur jarl Árnason varð handtekinn í orustu sem fyrr var ritað. Hann var leiddur til konungsins.

Haraldur konungur var þá allkátur og mælti: „Hér fundumst við nú Finnur en næst í Noregi. Hefir hirðin sú hin danska eigi staðið allfast fyrir þér og hafa Norðmenn illt að verki, draga þig blindan eftir sér og vinna það til lífs þér.“

Þá svarar jarl: „Mart verða Norðmenn illt að gera og það verst allt er þú býður.“

Þá mælti Haraldur konungur: „Viltu nú grið þóttú sért ómaklegur?“

Þá svarar jarl: „Eigi af hundinum þínum.“

Konungur mælti: „Viltu þá að Magnús frændi þinn gefi þér grið?“

Magnús sonur Haralds konungs stýrði þá skipi.

Þá svarar jarl: „Hvað mun hvelpur sá ráða griðum?“

Þá hló konungur og þótti skemmtan að erta hann og mælti: „Viltu taka grið af Þóru frændkonu þinni?“

Þá segir jarl: „Er hún hér?“

„Hér er hún,“ segir konungur.

Þá mælti Finnur jarl orðskræpi það er síðan er uppi haft, hversu reiður hann var er hann fékk eigi stillt orðum sínum: „Eigi er nú undarlegt að þú hafir vel bitist er merin hefir fylgt þér.“

Finni jarli voru gefin grið og hafði Haraldur konungur hann með sér um hríð. Var Finnur heldur ókátur og ómjúkur í orðum.

Þá mælti Haraldur konungur: „Sé eg það Finnur að þú vilt nú ekki þýðast við mig og við frændur þína. Vil eg nú gefa þér orlof að fara til Sveins konungs þíns.“

Jarl svarar: „Það vil eg þiggja og því þakksamlegar er eg kem fyrr í brott héðan.“

Síðan lét konungur flytja ferð jarls upp á land. Tóku Hallandsfarar vel við honum. Haraldur konungur hélt þá liði sínu norður í Noreg, fór fyrst inn til Óslóar, gaf þá heimleyfi öllu liði sínu því er fara vildi.