Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/67

Úr Wikiheimild

Svo segja menn að Sveinn konungur sat í Danmörk þann vetur og hélt ríki sínu sem áður. Hann sendi menn um veturinn norður á Halland eftir Karli og þeim hjónum. En er þau komu til konungs þá kallar hann Karl til sín. Síðan spurði konungur ef Karl kenndi hann eða þættist séð hafa hann fyrr.

Karl svarar: „Kenni eg þig nú konungur og kenndi eg þig fyrr þegar eg sá þig og er það guði að þakka er þér kom til gagns sá litli forbeini er eg veitti þér.“

Konungur svarar: „Alla þá daga er eg lifi síðan á eg þér að launa. Nú skal það hið fyrsta að eg gef þér bú það á Sjálandi er þú kýst þér og það með að eg skal gera þig mikinn mann ef þú kannt það með höndum hafa.“

Karl þakkaði konungi vel orð sín og segir að „enn er eftir bæn sú er eg vil biðja.“

Konungur spurði hvað það væri.

Karl segir: „Eg vil biðja þess að þú konungur látir mig hafa með mér konu mína.“

Konungur segir svo: „Það mun eg þér eigi veita því að eg skal fá þér miklu betri konu og vitrari. En kona þín fari með búkot það er þið hafið áður haft. Það mun henni framflutning.“

Konungur gaf Karli mikið bú og göfuglegt, fékk honum gott kvonfang og varð hann þá mikill maður fyrir sér. Varð það frægt og spurðist víða. Það kom norður í Noreg.