Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/68

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur sat þann vetur eftir Nissarorustu í Ósló. Um haustið er liðið kom sunnan þá var mikil umræða og frásögn um orustu þá er verið hafði um haustið fyrir Nissi. Þóttist hver sá er þar hafði verið nokkuð kunna að segja frá.

Það var eitt sinn að menn nokkurir sátu í undirskemmu einni og drukku og voru allmálgir. Þeir ræddu um Nissarorustu og það með hverjir þaðan höfðu borið orðstír mestan.

Þeir urðu allir á eitt sáttir að engi maður hefði þar slíkur verið sem Hákon jarl: „Hann var vopndjarfastur og hann var kænstur og hann var gæfumestur og það varð allt að mestu liði er hann gerði og hann vann sigurinn.“

Haraldur konungur var þar úti í garðinum og talaði við menn nokkura.

Síðan gekk hann fyrir skemmudyrnar og mælti: „Hákon mundi hér nú hver heita vilja,“ og gekk leið sína.