Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/69

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
69. Atferð við Hákon jarl


Hákon jarl fór um haustið til Upplanda og var þar um veturinn í ríki sínu. Hann var allvinsæll til Upplendinga.

Það var um vorið er á leið eitt sinn er menn sátu við drykkju að rætt var enn um Nissarorustu og lofuðu menn mjög Hákon jarl en sumir tóku eigi síður aðra til.

En er þeir höfðu það rætt um hríð þá svarar maður einnhver: „Vera kann að fleiri menn hafi djarflegar barist fyrir Nissi en Hákon jarl en þó mun sá engi þar verið hafa er eg hygg að slíkt happ mun hafa sótt sem hann.“

Þeir segja að það mundi mest happ hans er hann hafði rekið á flótta marga af Dönum.

Sá sami svarar: „Meira happ var það er hann gaf líf Sveini konungi.“

Einnhver svarar honum: „Það muntu eigi vita er þú segir.“

Hann svarar: „Þetta veit eg allgerla því að sá sagði mér sjálfur er konung flutti til lands.“

En þá var sem oft er mælt að mörg eru konungs eyru. Var konungi þetta sagt og jafnskjótt lét konungur þegar taka marga hesta og reið þegar um nóttina með tvö hundruð manna. Reið hann alla þá nótt og eftir um daginn. Þá riðu í mót þeim menn þeir er fóru út til bæjar með mjöl og malt. Maður hét Gamall er í för var með konungi. Hann reið að einum bóndanum. Sá var kunningi hans. Þeir mæltu einmæli.

Segir Gamall: „Eg vil kaupa að þér að þú ríðir sem ákaflegast launstígu þá er þú veist skemmsta og kom til Hákonar jarls. Seg honum að konungur vill drepa hann því að konungur veit nú að jarl hefir skotið Sveini konungi á land fyrir Nissi.“

Kaupa þeir saman. Reið sá bóndi og kom til jarls. Sat hann þá og drakk og var eigi sofa genginn. En er bóndi hafði sagt sín erindi stóð jarl þegar upp og allir hans menn. Lét jarl flytja í brott lausafé sitt allt af bænum til skógar. Voru og brottu menn allir af býnum um nóttina þá er konungur kom. Dvaldist hann þar um nóttina en Hákon jarl reið leið sína og kom fram austur í Svíaveldi til Steinkels konungs og dvaldist með honum um sumarið.

Haraldur konungur sneri síðan aftur út til býjar. Fór konungur um sumarið norður til Þrándheims. Dvöldust þar um sumarið en fóru aftur um haustið austur í Vík.