Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/70

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Hákon jarl fór þegar um sumarið aftur til Upplanda er hann spurði að konungur var norður farinn, dvaldist þar til þess er konungur kom norðan. Síðan fór jarl austur í Vermaland og dvaldist þar lengi um veturinn. Veitti Steinkell konungur jarli þar yfirsókn. Hann fór um veturinn er á leið vestur á Raumaríki og hafði hann lið mikið er Gautar og Vermir höfðu fengið honum. Þá tók hann landskyldir sínar og skatta af Upplendingum, þá er hann átti. Síðan fór hann austur aftur til Gautlands og dvaldist þar um vorið.

Haraldur konungur sat um veturinn í Ósló og gerði menn sína til Upplanda að heimta þar skatta og landskyldir og konungssakeyri. En Upplendingar segja svo að þeir mundu greiða allar skyldir þær er þeir ættu að greiða og fá í hendur Hákoni jarli meðan hann var á lífi og hann hafði ekki fyrirgert sér eða ríki sínu og fékk konungur þaðan engar landskyldir á þeim vetri.