Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/71

Úr Wikiheimild

Þann vetur fóru boð og sendimenn milli Noregs og Danmerkur og var það í bundið að hvorirtveggju, Norðmenn og Danir, vildu gera frið milli sín og sætt og báðu konunga til þess og fóru þær orðsendingar heldur líklega til sætta. Og kom svo að lyktum að sættarfundur var stefndur í Elfi milli Haralds konungs og Sveins konungs.

En er vorar safnar hvortveggi konunga liði miklu og skipum til þessarar ferðar og segir skáldið í einum flokki frá ferð þeirra:

Norðr lykr gramr, sá er gerðir
grund, frá Eyrarsundi,
hrafngælir sparn hæli
höfn, langskipa stöfnum.
Rista gulli glæstir
gjálfr, en hlýður skjálfa,
hvasst und her fyr vestan
Hallandi fram brandar.
Gerðir oft fyr jörðu
eiðfastr Haraldr skeiðum.
Sveinn sker og til annars
eysund konungsfundar.
Út hefra lið lítið
lofsnjallr Dana allra,
hinn er hvern vog sunnan,
hrafngrennir, lykr stöfnum.

Hér segir það að konungar þessir halda stefnulag það er gert var milli þeirra og koma þeir báðir til landamæris svo sem hér segir:

Sýstuð suðr þar er æstu,
snjallr gramr, Danir allir.
Enn sér eigi minni
efni mæltrar stefnu.
Sveinn tekr norðr að nenna
nær til landamæris,
varð fyr víðri jörðu
vindsamt, Harald finna.

En er konungarnir fundust tóku menn að ræða um sættir konunganna. En þegar það var í munni haft þá kærðu margir skaða sinn er fengið höfðu af hernaði, rán og mannalát. Var það langa hríð svo sem hér segir:

Telja hátt er hittast,
hvartveggja mjög, seggir,
orð þau er angra fyrða
allmjög, bændr snjallir.
Láta þeir, er þræta,
þegnar, allt í gegnum,
svellr ofrhugi jöfrum,
eigi brátt við sáttum.
Ofreiði verðr jöfra
allhætt ef skal sættast.
Menn, þeir er miðla kunna,
mál öll vega í skálum.
Dugir siklingum segja
slíkt allt er her líkar.
Veldr ef verr skulu höldar
vilji grandar því, skiljast.

Síðan áttu hlut í hinir bestu menn og þeir er vitrastir voru. Gekk þá saman sætt konunga með þeim hætti að Haraldur skyldi hafa Noreg en Sveinn Danmörk til þess landamæris sem að fornu hafði verið milli Noregs og Danmerkur. Skyldu hvorigir öðrum bæta. Skyldi þar hernaður leggjast sem hafist hafði en sá hafa happ er hlotið hafði. Sá friður skyldi standa meðan þeir væru konungar. Sú sætt var eiðum bundin. Síðan seldust konungarnir gíslar svo sem hér segir:

Hitt hefi eg heyrt að setti
Haraldr og Sveinn við meinum,
guð sýslir það, gísla
glaðr hvortveggi öðrum.
Þeir haldi svo særum,
sátt laukst þar með váttum,
og öllum frið fullum,
ferð að hvorgi skerði.

Haraldur konungur hélt liði sínu norður í Noreg en Sveinn konungur fór suður til Danmarkar.