Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/73

Úr Wikiheimild

Vetur þenna fór Haraldur konungur upp á Raumaríki og hafði lið mikið. Bar hann sakar á hendur bóndum, þær að þeir hefðu haldið fyrir honum skyldum og sköttum en eflt fjandmenn hans til ófriðar við hann. Hann lét taka bændur, hamla suma, suma drepa en marga ræna aleigunni. Þeir flýðu er því komu við. Allvíða lét hann brenna héruðin og gerði aleyðu.

Svo segir Þjóðólfur:

Tók Hólmbúa hneykir
harðan taum við Rauma.
Þar hykk fast hins frækna
fylking Haralds gingu.
Eldr var ger að gjaldi.
Gramr réð en þá téði
hár í hóf að færa
hrótgarmr bændr arma.

Síðan fór Haraldur konungur upp á Heiðmörk og brenndi þar og gerði þar hervirki eigi minna en hisug. Þaðan fór hann út á Haðaland og út á Hringaríki, brenndi þar og fór allt herskildi.

Svo segir Þjóðólfur:

Gagn brann greypra þegna.
Glóð varð föst í tróði.
Laust hertoga hristir
Heina illum steini.
Lífs báðu sér lýðir.
Logi þingaði Hringum
nauðgan dóm áðr næmist
niðrfall Hálfs galla.

Eftir það lögðu bændur allt sitt mál undir konung.