Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/75
Útlit
Játvarður Aðalráðsson var konungur í Englandi eftir Hörða-Knút bróður sinn. Hann var kallaður Játvarður hinn góði. Hann var svo. Móðir Játvarðar konungs var Emma drottning dóttir Ríkarðar Rúðujarls. Bróðir hennar var Róðbjartur jarl, faðir Vilhjálms bastarðs er þá var hertogi í Rúðu í Norðmandí.
Játvarður konungur átti Gyðu drottning, dóttur Guðina jarls Úlfnaðurssonar. Bræður Gyðu voru Tósti jarl, hann var elstur, annar Mörukári jarl, þriðji Valþjófur jarl, fjórði Sveinn jarl, fimmti Haraldur. Hann var yngstur. Hann fæddist upp í hirð Játvarðar konungs og var hans fósturson og unni konungur honum geysimikið og hafði hann sér fyrir son því að konungur átti ekki barn.