Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/76

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Það var á einu sumri að Haraldur Guðinason átti ferð til Bretlands og fór á skipi. En er þeir komu í haf tók þá andviðri og rak út í haf. Þeir tóku land vestur í Norðmandí og höfðu fengið storm mannhættan. Þeir lögðu til borgarinnar Rúðu og fundu þar Vilhjálm jarl. Tók hann við Haraldi feginsamlega og hans föruneyti. Dvaldist Haraldur þar lengi um haustið í góðum fagnaði því að stormar lágu á og var eigi í haf fært.

En er að leið vetrinum þá ræddu þeir það, jarl og Haraldur, að Haraldur mundi þar dveljast um veturinn. Sat Haraldur í hásæti á aðra hönd jarli en til annarrar handar kona jarls. Hún var hverri konu fríðari er menn höfðu séð. Þau töluðu öll saman sér gaman jafnan við drykkju. Jarl gekk oftast snemma að sofa en Haraldur sat lengi á kveldum og talaði við konu jarls. Fór svo fram lengi um veturinn.

Eitt sinn er þau töluðu segir hún: „Nú hefir jarl rætt um við mig og spurt hvað við töluðum svo þrátt og er hann nú reiður.“

Haraldur svarar: „Við skulum hann nú láta vita sem skjótast allar ræður okkrar.“

Eftir um daginn kallar Haraldur jarl til tals við sig og gengu þeir í málstofu. Þar var og kona jarls og ráðuneyti þeirra.

Þá tók Haraldur til máls: „Það er að segja yður jarl að fleira býr í hingaðkomu minni en það er eg hefi enn upp borið fyrir yður. Eg ætla að biðja dóttur þinnar til eiginkonu mér. Hefi eg þetta rætt fyrir móður hennar oftlega og hefir hún mér því heitið að liðsinna þetta mál við yður.“

En þegar er Haraldur hafði þetta upp borið þá tóku allir því vel, þeir er heyrðu, og fluttu það fyrir jarli. Kom þetta mál svo að lyktum að mærin var föstnuð Haraldi en fyrir því að hún var ung þá var mælt nokkurra vetra frest á til brúðlaupsstefnu.