Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/77
En er vor kom þá bjó Haraldur skip sitt og ferð brott. Skildust þeir jarl með kærleikum miklum. Fór þá Haraldur út til Englands á fund Játvarðar konungs og kom ekki til Vallands síðan að vitja ráðs þessa.
Játvarður konungur var yfir Englandi þrjá vetur og tuttugu og varð hann sóttdauður í Lundúnum None Januarii. Hann var jarðaður að Pálskirkju og kalla enskir menn hann helgan.
Synir Guðina jarls voru þá ríkastir manna á Englandi. Var Tósti settur höfðingi yfir her Englakonungs og var hann landvarnarmaður þá er konungur tók að eldast. Hann var settur yfir alla jarla aðra. Haraldur bróðir hans var jafnan innan hirðar hinn næsti maður um alla þjónustu og hafði allar féhirslur konungs að gæta.
Það er sögn manna að þá er fram leið að andláti konungs að þá var Haraldur nær og fátt manna annað.
Þá laut Haraldur yfir konunginn og mælti: „Því skírskota eg undir alla yður að konungur gaf mér nú konungdóm og allt ríki í Englandi.“
Því næst var konungur hafiður dauður úr hvílunni.
Þann sama dag var þar höfðingjastefna. Var þá rætt um konungstekju. Lét þá Haraldur bera fram vitni sín, þau er Játvarður konungur gaf honum ríki á deyjanda degi. Lauk svo þeirri stefnu að Haraldur var til konungs tekinn og vígður konungsvígslu hinn þrettánda dag í Pálskirkju. Gengu þá allir höfðingjar til handa honum og allt fólk.
En er það spurði Tósti jarl bróðir hans líkaði honum illa. Þóttist hann eigi verr til kominn að vera konungur: „Vil eg,“ segir hann, „að landshöfðingjar kjósi þann til konungs er þeim þykir best vera til fallinn.“
Og fóru þau orð milli þeirra bræðra. Haraldur konungur segir svo að hann vill eigi upp gefa konungdóm fyrir það að hann var stólsettur í þeim stað sem konungur átti en verið síðan smurður og vígður konungsvígslu. Hvarf og til hans allur styrkur fjölmennis. Hafði hann og féhirslur konungs allar.