Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/78

Úr Wikiheimild

En er Haraldur varð þess var að Tósti bróðir hans vildi hafa hann af konungdóminum þá trúði hann honum illa því að Tósti var maður forvitri og maður mikill og átti vel vingað við landshöfðingja. Tók þá Haraldur konungur af Tósta jarli herstjórnina og allt það vald er hann hafði áður haft framar en aðrir jarlar þar í landi. Tósti jarl vildi það fyrir engan mun þola að vera þjónustumaður bróður síns samborins.

Fór hann þá í brott með liði sínu suður um sjá í Flandur, dvaldist þar litla hríð, fór þá til Fríslands og svo þaðan til Danmerkur á fund Sveins konungs frænda síns. Þau voru systkin Úlfur jarl faðir Sveins konungs og Gyða móðir Tósta jarls. Jarl biður Svein konung fulltings og liðveislu. Sveinn konungur bauð honum til sín og segir að hann skal fá jarlsríki í Danmörk, það er hann megi vera þar sæmilegur höfðingi.

Jarl segir svo: „Þess girnir mig að fara til Englands aftur til óðala minna. En ef eg fæ engan styrk til þess af yður, konungur, þá vil eg heldur það til leggja við yður að veita yður allan styrk þann er eg á kost í Englandi ef þér viljið fara með Danaher til Englands að vinna land svo sem Knútur móðurbróðir yðvar.“

Konungur segir: „Svo miklu em eg minni maður en frændi minn, Knútur konungur, að varla fæ eg haldið Danaveldi fyrir Norðmönnum. Hinn gamli Knútur eignaðist að erfð Danaríki en með hernaði og orustu England og var það um hríð þó eigi óvænna að hann mundi þar eftir leggja líf sitt. Noreg fékk hann orustulaust. Nú kann eg ætla mér hóf meir eftir mínu lítilræði en eftir framkvæmd Knúts konungs frænda míns.“

Þá mælti jarl: „Minna verður mitt erindi hingað en eg hugði að þú mundir vera láta, svo göfugur maður, í nauðsyn mína, frænda þíns. Kann nú vera að eg leiti þannug vináttunnar, er miklu er ómaklegra, en þó má vera að eg finni þann höfðingja er miður vaxi fyrir augum að ráða mjög stórt heldur en þér konungur.“

Síðan skildust þeir konungur og jarl og ekki mjög sáttir.