Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/79

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
79. Ferð Tósta til Noregs


Tósti jarl snýr þá ferðinni og kom hann fram í Noreg og fór á fund Haralds konungs. Hann var í Víkinni. En er þeir finnast ber jarl upp fyrir konung erindi sín, segir honum allt um ferð sína síðan er hann fór af Englandi, biður konung fá sér styrk að sækja ríki sitt í Englandi.

Konungur segir svo að Norðmenn munu þess ekki fýsa að fara til Englands og herja og hafa enskan höfðingja yfir sér: „Mæla menn það,“ segir hann, „að þeir hinir ensku séu ekki alltrúir.“

Jarl svarar: „Hvort er það með sannindum, er eg hefi heyrt menn segja í Englandi, að Magnús konungur frændi þinn sendi menn til Játvarðar konungs og var það í orðsending að Magnús konungur átti England slíkt sem Danmörk arftekið eftir Hörða-Knút svo sem svardagar þeirra höfðu til staðið?“

Konungur segir: „Hví hafði hann það þá eigi ef hann átti það?“

Jarl segir: „Hví hefir þú eigi Danmörk svo sem Magnús konungur hafði fyrir þér?“

Konungur segir: „Ekki þurfa Danir að hælast við oss Norðmenn. Marga díla höfum vér brennt þeim frændum þínum.“

Þá mælti jarl: „Viltu eigi mér segja, þá mun eg þér segja. Því eignaðist Magnús konungur Danmörk að þarlandshöfðingjar veittu honum en því fékkstu eigi að allt landsfólk stóð í móti þér. Því barðist Magnús konungur eigi til Englands að allur landslýður vildi hafa Játvarð að konungi. Viltu eignast England þá má eg svo gera að meiri hlutur höfðingja í Englandi munu vera vinir þínir og liðsinnismenn. Skortir mig eigi meira við Harald bróður minn en konungsnafn eitt. Það vita allir menn að engi hermaður hefir slíkur fæðst á Norðurlöndum sem þú og það þykir mér undarlegt er þú barðist fimmtán vetur til Danmerkur en þú vilt eigi hafa England er nú liggur laust fyrir þér.“

Haraldur konungur hugsaði vandlega hvað jarl mælti og skildi að hann segir mart satt og í annan stað gerðist hann fús til að fá ríkið. Síðan töluðu þeir konungur og jarl löngum og oft. Settu þeir þá ráðagerð þessa, að þeir skyldu fara um sumarið til Englands og vinna landið.

Sendi Haraldur konungur orð um allan Noreg og bauð út leiðangri, hálfum almenningi. Var þetta nú allfrægt. Voru margar getur á hvernug förin mundi verða. Mæltu sumir og töldu upp stórvirki Haralds konungs að honum mundi ekki ófært vera en sumir sögðu að England mundi vera torsótt, mannfólk ófa mikið á og lið það er kallað er þingamannalið. Þeir voru menn svo fræknir að betra var lið eins þeirra en tveggja Haralds manna hinna bestu.

Þá svarar Úlfur stallari:

Era stallarum stillis
stafnrúm Haralds jafnan,
ónauðigr fékk eg auðar,
innan þörf að hvarfa,
ef, hörbrekkan, hrökkva,
hrein, skulu tveir fyrir einum,
ungr kenndi eg mér, undan,
annað, þingamanni.

Úlfur stallari andaðist það vor.

Haraldur konungur stóð yfir grefti hans og mælti er hann gekk frá: „Þar liggur sá nú er dyggvastur var og drottinhollastur.“

Tósti jarl sigldi um vorið vestur til Flæmingjalands mót liði því er honum hafði fylgt utan af Englandi og því öðru er safnaðist til hans bæði af Englandi og þar í Flæmingjalandi.