Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/80

Úr Wikiheimild

Her Haralds konungs safnaðist saman í Sólundum.

En er Haraldur konungur var búinn að leggja út úr Niðarósi þá gekk hann áður til skríns Ólafs konungs og lauk upp og klippti hár hans og negl og læsti síðan skríninu en kastaði luklunum út á Nið og hefir ekki síðan upp verið lokið skríni hins helga Ólafs konungs. Þá var liðið frá falli hans hálfur fjórði tugur vetra. Hann lifði og hálfan fjórða tug vetra hér í heimi.

Haraldur konungur hélt því liði er honum fylgdi suður til móts við lið sitt. Þar kom saman lið mikið svo að það er sögn manna að Haraldur konungur hefði nær tveimur hundruðum skipa og umfram vistabyrðingar og smáskútur.

Þá er þeir lágu í Sólundum þá dreymdi mann þann er var á konungsskipinu er Gyrður er nefndur. Hann þóttist þar vera staddur á konungsskipinu og sá upp á eyna hvar tröllkona mikil stóð og hafði skálm í hendi en í annarri hendi trog. Hann þóttist og sjá yfir öll skip þeirra að honum þótti fugl sitja á hverjum skipstafni. Það voru allt ernir og hrafnar.

Tröllkonan kvað:

Víst er að allvaldr austan
eggjast vestr að leggja
mót við marga knútu,
minn snúðr er það, prúða.
Kná valþiður velja,
veit ærna sér beitu,
steik af stillis haukum
stafns. Fylgi eg því jafnan.