Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/84

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Síðan fór Haraldur konungur til Humbru og upp eftir ánni og lagði þar við land. Þá voru jarlarnir uppi í Jórvík, Mörukári og Valþjófur jarl bróðir hans, og höfðu óvígjan her. Þá lá Haraldur konungur í Úsu er her jarla sótti ofan.

Þá gekk Haraldur konungur á land og tók að fylkja liði sínu. Stóð fylkingararmurinn annar fram á árbakkann en annar vissi upp á landið að díki nokkuru. Það var fen djúpt og breitt og fullt af vatni. Jarlar létu síga fylking sína ofan með ánni með öllum múginum. Konungsmerkið var nær ánni. Var þar allþykkt fylkt en þynnst við díkið og lið það ótraustast. Þá sóttu jarlar ofan með díkinu. Veik þá fyrir fylkingararmur Norðmanna, sá er vissi að díkinu, en enskir menn sóttu þar fram eftir þeim og hugðu að Norðmenn mundu flýja vilja. Fór þar fram merki Mörukára.