Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/83

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

En er Haraldur konungur var búinn og byr gaf sigldi hann út á haf og kom af hafi við Hjaltland en sumt lið hans kom við Orkneyjar. Lá Haraldur konungur þar litla hríð áður hann sigldi til Orkneyja og hafði þaðan með sér lið mikið og jarlana Pál og Erlend, sonu Þorfinns jarls, en lét þar eftir Ellisif drottning og dætur þeirra, Maríu og Ingigerði.

Þaðan sigldi hann suður fyrir Skotland og svo fyrir England og kom þar við land sem heita Kliflönd. Þar gekk hann á land og herjaði þegar og lagði landið undir sig, fékk enga mótstöðu.

Síðan lagði Haraldur konungur til Skarðaborgar og barðist þar við borgarmenn. Hann gekk upp á bergið það sem þar verður og lét þar gera bál mikið og leggja í eld. En er bálið logaði tóku þeir forka stóra og skutu bálinu ofan í býinn. Tók þá að brenna hvert hús af öðru. Gekk þá upp allur staðurinn. Drápu þá Norðmenn þar mart manna en tóku fé allt það er þeir fengu. Var enskum mönnum þá engi kostur fyrir höndum ef þeir skyldu halda lífinu nema ganga til handa Haraldi konungi. Lagði hann þá undir sig land allt þar sem hann fór.

Síðan lagði Haraldur konungur með allan herinn suður með landi og lagði að við Hellornes. Kom þar safnaður í mót honum og átti Haraldur konungur þar orustu og fékk sigur.