Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/82

Úr Wikiheimild

Harald konung dreymdi enn um nótt að hann var í Niðarósi og hitti Ólaf konung bróður sinn og kvað hann vísu fyrir honum:

Gramr vó frægr til fremdar
flestan sigr hinn digri.
Hlaut eg því að heima sátum
heilagt fall til vallar.
Uggi eg enn að, tyggi,
yðr muni feigð um byrjuð.
Trölls gefið fákum fyllar
fíks. Veldra guð slíku.

Margir aðrir draumar voru þá sagðir og annars konar fyrirburðir og flestir dapurlegir. Haraldur konungur, áður hann færi úr Þrándheimi, hafði þar látið taka til konungs Magnús son sinn og setti hann til ríkis í Noregi er Haraldur konungur fór í brott. Þóra Þorbergsdóttir var og eftir en Ellisif drottning fór með honum og dætur hennar, María og Ingigerður. Ólafur son Haralds konungs fór og með honum úr landi.