Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/86

Úr Wikiheimild


Tósti jarl hafði komið sunnan af Flæmingjalandi til Haralds konungs þegar er hann kom til Englands og var jarl í öllum orustum þessum. Fór þá svo sem hann hafði sagt Haraldi, fyrr en þeir fyndust, að fjöldi manns dreif til þeirra í Englandi. Það voru frændur og vinir Tósta jarls og var konungi það mikill styrkur liðs.

Eftir þessa orustu, er áður var frá sagt, gekk undir Harald konung lið allt um hin næstu héruð en sumt flýði. Þá byrjaði Haraldur konungur ferð sína að vinna borgina og lagði herinum við Stanforðabryggjur. En fyrir þá sök að konungur hafði unnið svo mikinn sigur við stóra höfðingja og ofurefli liðs, var allt fólk hrætt og örvæntist mótstöðu. Þá gerðu borgarmenn ráð fyrir sér að senda boð Haraldi konungi og bjóðast í vald hans og svo borgina. Var þetta allt boðað svo að sunnudaginn fór Haraldur konungur með öllum herinum til borgarinnar og setti þing utan borgar, konungur og menn hans, en borgarmenn sóttu til þingsins. Játaðist allt fólk undir hlýðni við Harald konung og fengu honum gíslar, tiginna manna sonu, svo sem Tósti jarl kunni skyn allra manna í þeirri borg, og fór konungur um kveldið ofan til skipanna með sjálfgerum sigri og var allkátur. Var ákveðið þing snemma mánadaginn í borginni. Skyldi þá Haraldur konungur skipa staðinn með ríkismönnum og gefa réttu og lén.

Það sama kveld eftir sólarsetur kom sunnan að borginni Haraldur konungur Guðinason með óvígjan her. Reið hann í borgina að vild og þokka allra borgarmanna. Voru þá tekin öll borgarhlið og allir vegar að eigi skyldu njósnir koma Norðmönnum. Var þessi her um nóttina í staðinum.