Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/87

Úr Wikiheimild

Mánadaginn er Haraldur Sigurðarson var mettur að dagverðarmáli þá lét hann blása til landgöngu, býr þá herinn og skiptir liðinu hverjir fara skulu eða hverjir eftir skulu vera. Hann lét upp ganga í hverri sveit tvo menn þar er einn var eftir. Tósti jarl bjó sig til uppgöngu með Haraldi konungi með sína sveit en eftir voru til skipagæslu Ólafur konungsson og Páll og Erlendur Orkneyjajarlar og Eysteinn orri sonur Þorbergs Árnasonar er þá var ágætastur og kærstur konungi allra lendra manna. Þá hafði Haraldur konungur heitið honum Maríu dóttur sinni. Þá var veður forkunnlega gott og heitt skin. Menn lögðu eftir brynjur sínar en gengu upp með skjöldum og hjálmum og kesjum og sverðum gyrðir og margir höfðu og skot og boga og voru allkátir.

En er þeir sóttu í nánd borginni reið í móti þeim lið mikið. Sáu þeir jóreykinn og undir fagra skjöldu og hvítar brynjur. Þá stöðvaði konungur liðið, lét kalla til sín Tósta jarl og spurði hvað liði það mundi vera.

Jarl segir, lést þykja meiri von að ófriður mundi vera, lét og hitt vera mega að þetta mundu vera frændur hans nokkurir og leiti til vægðar og vináttu en fá í móti af konungi traust og trúnað. Þá mælti konungur að þeir mundu fyrst halda kyrru og forvitnast um herinn. Þeir gerðu svo og var liðið því meira er nálegar kom og allt að sjá sem á eina ísmöl er vopnin glóuðu.