Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/9

Úr Wikiheimild

Menn íslenskir eru nefndir, þeir er fóru þar með Haraldi konungi: Halldór sonur Snorra goða, hann hafði þessa frásögn hingað til lands, annar var Úlfur sonur Óspaks sonar Ósvífurs hins spaka. Þeir voru báðir hinir sterkustu menn og allvopndjarfir og voru hinir kærstu Haraldi. Þeir voru báðir í leikinum.

En er þessa leið hafði farið nokkura daga þá vildu borgarmenn sýna enn meira kapp. Gengu þeir þá ekki með vopnum upp á borgarveggina en létu þó opin standa borgarhliðin.

En er það sáu Væringjar þá gengu þeir einn dag svo til leiksins að þeir höfðu sverð undir möttlum en hjálma undir höttum. En er þeir höfðu leikið um hríð þá sáu þeir að borgarmenn undruðust ekki. Þá tóku þeir skjótt vopnin, runnu síðan að borgarhliðinu. En er borgarmenn sáu það gengu þeir í móti vel og höfðu sín alvæpni. Tókst þar bardagi í borgarhliðinu. Væringjar höfðu engar hlífar nema það er þeir sveipuðu möttlum um vinstri hönd sér. Urðu þeir sárir en sumir féllu en allir voru nauðulega staddir. Haraldur og það lið með honum, er var í herbúðum, sótti til að veita sínum mönnum. En borgarmenn voru þá komnir upp á borgarveggi, skutu og grýttu á þá. Varð þá hörð orusta. Þótti þeim er í borgarhliðinu voru vera seinna gengið að hjálpa þeim en þeir vildu. En er Haraldur kom að borgarhliðinu þá féll merkismaður hans.

Þá mælti hann: „Halldór, tak upp merkið.“

Halldór svaraði og tók upp stöngina og mælti óviturlega: „Hver mun merki bera fyrir þér ef þú fylgir svo blauðlega sem nú er um hríð?“

Var það meir reiðimál en sannyrði því að Haraldur var hinn vopndjarfasti maður. Sóttu þeir þá í borgina. Var þá bardagi harður og lauk svo að Haraldur hafði sigur og vann borgina.

Halldór varð sár mjög, hafði sár mikið í andliti og var það lýti alla ævi meðan er hann lifði.