Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/10
Sú var hin fjórða borg, er Haraldur kom til með her sinn, er mest var af öllum þeim er áður var frá sagt. Hún var og svo sterk að þeir sáu enga von vera að þeir fengju hana brotið. Síðan sátu þeir um borgina og gerðu umsátir svo að engi föng mátti flytja til borgarinnar.
En er þeir höfðu litla hríð dvalist þá fékk Haraldur sjúkleik svo að hann lagðist í rekkju. Lét hann setja sitt landtjald brott frá öðrum herbúðum því að honum þótti sér það ró að heyra eigi gný og glaum herliðsins. Menn hans komu tíðum með flokka til hans og frá og spyrja hann ráðagerðar.
Það sáu borgarmenn að nokkurar nýlundur voru með Væringjum. Gerðu þeir til njósnarmenn að forvitnast hverju slíkt mundi gegna. En er njósnarmenn komu aftur til borgarinnar þá kunnu þeir segja þau tíðindi að höfðingi Væringja væri sjúkur og fyrir þá sök var engi atsókn til borgar. En er svo hafði liðið fram um hríð þá minnkaði mátt Haralds. Gerðust þá hans menn mjög hugsjúkir og daprir. Slíkt allt spurðu borgarmenn. Þar kom að svo þröngdi sótt Haraldi að andlát hans var sagt um allan herinn. Síðan fóru Væringjar til tals við borgarmenn og segja þeim líflát höfðingja síns, báðu kennimenn veita honum gröft í borginni.
En er borgarmenn spurðu þessi tíðindi þá voru þeir margir er þar réðu fyrir klaustrum eða öðrum stórstöðum í borginni, þá vildi hver gjarna það lík hafa til sinnar kirkju því að þeir vissu að þar mundi fylgja offur mikið.
Skrýddist þá allur fjöldi kennimanna og gekk út úr borginni með skrín og helga dóma og gerðu fagra prósessíu. En Væringjar gerðu og mikla líkferð. Var þá líkkistan borin hátt og tjaldað yfir pellum, borin þar yfir merki mörg. En er slíkt var borið inn um borgarhliðið þá skutu þeir niður kistunni um þvert hliðið borgarinnar fyrir hurðirnar. Blésu þá Væringjar í alla lúðra sína herblástur og brugðu sverðunum. Þusti þá allur Væringjaher úr herbúðunum með alvæpni og hljópu þá til borgarinnar með ópi og kalli. En munkar og aðrir kennimenn, þeir er út höfðu gengið í líkferð þessa, kepptust hvorir við aðra að fyrstir og fremstir vildu út ganga að taka við offrinu, þá var þeim nú hálfu meira kapp á því að vera sem first Væringjum því að þeir drápu hvern þann er þeim var næst, hvort er hann var klerkur eða óvígður. Væringjar gengu svo um alla borgina þessa að þeir drápu mannfólkið en rændu alla staði í borginni og tóku þar ógrynni fjár.