Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/94

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Styrkár stallari Haralds konungs Sigurðarsonar komst brott, ágætur maður. Hann fékk hest og reið svo í brott. Um kveldið gerðist á vindur nokkur og heldur svalt en Styrkár hafði ekki klæði fleiri en skyrtu eina og hjálm á höfði og nökkvið sverð í hendi. Honum svalaði er hann hratt af sér mæðinni. Þá kom í móti honum vagnkarl einn og var í kösungi fóðruðum.

Þá mælti Styrkár: „Viltu selja kösunginn bóndi?“

„Eigi þérna,“ segir hann, „þú munt vera Norðmaður. Kenni eg mál þitt.“

Þá mælti Styrkár: „Ef eg em Norðmaður hvað viltu þá?“

Bóndi svarar: „Eg vildi drepa þig en nú er svo illa að eg hefi ekki vopn það er nýtt sé.“

Þá mælti Styrkár: „Ef þú mátt mig ekki drepa bóndi þá skal eg freista ef eg megi þig drepa,“ reiðir upp sverðið og setur á háls honum svo að af fauk höfuðið, tók síðan skinnhjúpinn og hljóp á hest sinn og fór til strandar ofan.