Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/93

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Eysteinn orri kom í því bili frá skipum með því liði er honum fylgdi. Voru þeir albrynjaðir. Fékk Eysteinn þá merki Haralds konungs Landeyðuna. Varð nú orusta hið þriðja sinn og var sú hin snarpasta. Féllu þá mjög enskir menn og var við sjálft að þeir mundu flýja. Sú orusta var kölluð Orrahríð.

Þeir Eysteinn höfðu farið svo ákaflega frá skipunum að þeir voru fyrr svo móðir að nálega voru þeir ófærir áður en þeir kæmu til orustu en síðan voru þeir svo óðir að þeir hlífðu sér ekki meðan þeir máttu upp standa. Að lyktum steyptust þeir af hringabrynjunum. Var þá enskum mönnum hægt að finna höggstaði á þeim en sumir sprungu með öllu og dóu ósárir. Féll nálega allt stórmenni Norðmanna. Þetta var hinn efra hlut dags. Var það sem von var, að þar voru enn eigi allir jafnir, margir flýðu, margir og þeir er svo komust undan að ýmsir báru auðnu til. Gerði og myrkt um kveldið áður en lokið var öllum manndrápum.