Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/92

Úr Wikiheimild

Nú hefur upp orustu og veita enskir menn áreið Norðmönnum. Varð viðurtakan hörð. Varð óhægt enskum mönnum að ríða á Norðmenn fyrir skotum og riðu þeir í hring um þá. Var það fyrst laus orusta meðan Norðmenn héldu vel fylkingu en enskir menn riðu að hart og þegar frá er þeir fengu ekki að gert. En er Norðmenn sáu það að þeim þótti blautlega að riðið þá sóttu þeir að þeim og vildu reka flóttann. En er þeir höfðu brugðið skjaldborginni þá riðu enskir menn að þeim öllum megin og báru á þá spjót og skot.

En er Haraldur konungur Sigurðarson sá það gekk hann fram í orustu þar er mestur var vopnaburðurinn. Var þar þá hin harðasta orusta og féll mikið lið af hvorumtveggjum. Þá varð Haraldur konungur Sigurðarson svo óður að hann hljóp fram allt úr fylkingunni og hjó báðum höndum. Hélt þá hvorki við honum hjálmur né brynja. Þá stukku frá allir þeir er næstir voru. Var þá við sjálft að enskir menn mundu flýja.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Hafði brjóst, né bifðist
böðsnart konungs hjarta,
í hjálmþrimu hilmir
hlítstyggr fyr sér lítið,
þars til þengils hersa
þat sá her, að skatna
blóðugr hjörr hins barra
beit döglinga hneitis.

Haraldur konungur Sigurðarson var lostinn öru í óstinn. Það var hans banasár. Féll hann þá og öll sveit sú er fram gekk með honum nema þeir er aftur opuðu og héldu þeir merkinu. Var þá enn hinn harðasti bardagi. Gekk þá Tósti jarl undir konungsmerki. Tóku þá hvorirtveggju að fylkja í annað sinn og varð þá á dvöl mjög löng á orustunni.

Þá kvað Þjóðólfur:

Öld hefir afhroð goldið
illt. Nú kveð eg her stilltan.
Bauð þessa för þjóðum
þarflaust Haraldr austan.
Svo lauk siklings ævi
snjalls, að vér róm allir,
lofðungr beið hinn leyfði
lífs grand, í stað vöndum.

En áður saman sigi orusta þá bauð Haraldur Guðinason grið Tósta jarli bróður sínum og þeim mönnum öðrum er þá lifðu eftir af liði Norðmanna. En Norðmenn æptu allir senn og sögðu svo að fyrr skyldi hver falla um þveran annan en þeir gengju til griða við enska menn, æptu þá heróp. Tókst þá orusta í annað sinn.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Eigi varð hins ýgja
auðlegr konungs dauði.
Hlífðut hlenna svæfi
hoddum roðnir oddar.
Heldr kusu meir hins milda
mildings en grið vildu
um fólksnaran fylki
falla liðsmenn allir.