Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/91

Úr Wikiheimild

Riddarar tuttugu riðu fram af þingamannaliði fyrir fylking Norðmanna og voru albrynjaðir og svo hestar þeirra.

Þá mælti einn riddari: „Hvort er Tósti jarl í liðinu?“

Hann svarar: „Ekki er því að leyna. Hér munuð þér hann finna.“

Þá mælti einn riddari: „Haraldur bróðir þinn sendi þér kveðju og þau orð með að þú skyldir hafa grið og Norðimbraland allt, og heldur en eigi viljir þú til hans hneigjast, þá vill hann gefa þér þriðjung ríkis alls með sér.“

Þá svarar jarl: „Þá er nokkuð annað boðið en ófriður og svívirðing sem í vetur. Hefði þá verið þetta boðið þá væri margur maður sá á lífi er nú er dauður og betur mundi þá standa ríki í Englandi. Nú tek eg þenna kost, hvað vill hann þá bjóða Haraldi konungi Sigurðarsyni fyrir sitt starf?“

Þá mælti riddarinn: „Sagt hefir hann þar nokkuð frá hvers hann mun honum unna af Englandi. Sjö fóta rúm eða því lengra sem hann er hærri en aðrir menn.“

Þá segir jarl: „Farið nú og segið Haraldi konungi að hann búist til orustu. Annað skal satt að segja með Norðmönnum en það að Tósti jarl fari frá Haraldi konungi Sigurðarsyni og í óvinaflokk hans þá er hann skyldi berjast í Englandi vestur. Heldur skulum vér allir taka eitt ráð, deyja með sæmd eða fá England með sigri.“

Þá riðu aftur riddarar.

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson við jarl: „Hver var þessi hinn málsnjalli maður?“

Þá segir jarl: „Það var Haraldur konungur Guðinason.“

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson: „Of lengi vorum vér þessu leyndir. Þeir voru svo komnir fyrir lið vort að eigi mundi þessi Haraldur kunna segja banaorð vorra manna.“

Þá segir jarl: „Satt er það herra. Óvarlega fór slíkur höfðingi og vera mætti svo sem þér segið. Sá eg það að hann vildi mér grið bjóða og ríki mikið en eg væri banamaður hans ef eg segði til hans. Vil eg heldur að hann sé minn banamaður en eg hans.“

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson til sinna manna: „Lítill maður var þessi og stóð steigurlega í stigreip.“

Svo segja menn að Haraldur konungur Sigurðarson kvað vísu þessa:

Fram göngum vér
í fylkingu
brynjulausir
undir blár eggjar.
Hjálmar skína.
Hefkat eg mína.
Nú liggr skrúð vort
að skipum niðri.

Emma hét brynja hans. Hún var síð svo að hún tók á mitt bein honum og svo sterk að aldrei hafði vopn á fest.

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson: „Þetta er illa kveðið og mun verða að gera aðra vísu betri.“

Þá kvað hann þetta:

Krjúpum vér fyr vopna,
valteigs, brakan eigi,
svo bauð Hildr, að hjaldri,
haldorð, í bug skjaldar.
Hátt bað mig, þar er mættust,
menskorð bera forðum,
hlakkar ís og hausar,
hjálmstofn í gný málma.

Þá kvað og Þjóðólfur:

Skalka eg frá, þótt fylkir
falli sjálfr til vallar,
gengr sem guð vill, ungum
grams erfingjum hverfa.
Skínnat sól á sýnni,
snarráðs, en þá báða,
Haralds eru haukar gervir
hefnendr, konungsefni.